þriðjudagur, 1. nóvember 2016

Hlýjasti október frá upphafi mælinga á landinu í heild?
Landsmeðalhiti (í byggð) í október reiknast nú 7,5 stig, 0,4 stigum hærri en áður er vitað um. Gæti hnikast lítillega við yfirferð athugana. Í þessu samhengi eru 0,4 stig mikið. Næstu tölur eru í hnapp, þrír eldri októbermánuðir nánast jafnhlýir, 1915 (7,06 stig), 1946 (7,05 stig) og 1959 (7,04 stig). Svo er talsvert bil niður í næstu sæti, 1920 (6,60 stig) og 1908 (6,54 stig). - Neðstur á listanum er október 1917 (-0,67 stig).
Við látum mánaðaryfirlit Veðurstofunnar um að tíunda endanlegar niðurstöður fyrir einstakar stöðvar.
Úrkomumet hafa verið sett víða - þar á meðal í Reykjavík sem rauf 200 mm múrinn í fyrsta sinn í októbermánuði. Svo virðist sem mánaðarúrkoman á Nesjavöllum hafi mælst 945,4 mm (bráðabirgðatala). Sé það rétt er það mesta úrkoma sem mælst hefur nokkru sinni á veðurstöð í október og aðeins rétt neðan við það sem mest hefur áður mælst í einum mánuði hér á landi (971,5 mm á Kollaleiru í Reyðarfirði í nóvember 2002).
Á sjálfvirku stöðinni í Bláfjöllum er bráðabirgðasumma mánaðarins 998,0 mm - en stöðin sú hefur stundum verið að stríða okkur og rétt að fara vel yfir mælingarnar áður en tala hennar verður tekin fullgild.
Svo stefnir mánuðurinn í að verða frostlaus á fjölmörgum stöðvum - þar á meðal í Reykjavík. Á fyrri tíð er aðeins vitað um eitt ár þar sem ekkert hafði frosið í Reykjavík fyrir 1. nóvember. Það var 1939, þá kom fyrsta frost 10. nóvember og það kólnaði hratt því þann 12. fór frostið niður í -8,2 stig.
Líkar þettaSýna fleiri viðbrögð
Skrifa ummæli

Engin ummæli:

Skrifa ummæli