þriðjudagur, 1. nóvember 2016

Ætli við getum ekki sagt að úrkomumet októbermánaðar sé að falla í Reykjavík, 176,2 mm þegar komnir í mælinn, metið frá 1936 180,8 mm rétt innan seilingar og 6 úrkomumælimorgnar eftir - fer að verða spurning um hvort líka verði komist yfir 200 mm múrinn - en bæði febrúar og nóvember hafa áður náð honum (og reyndar janúar líka ef við teljum hinar fornu athuganir Jóns Þorsteinssonar landlækis með).
Meðalhitinn í Reykjavík stendur nú í 8,65 stigum - gefur 207,6 punkta - enn vantar 38,6 upp á hitametið frá 1915 [7,94] - vonlítið það - en meiri von í 7 stigin (og þar með hlýjasta október frá 1965), vantar aðeins tæpa 10 punkta upp á þau (sæmileg von). Þó langt virðist vera frá 8,65 niður í 7 stig má minna á að október 1965 stóð á sama degi í 8,51 stigi - en hrapaði síðustu 7 dagana niður í 7,04 - hlutirnir fljótir að gerast snúist hann á áttinni.
Fjölmargar veðurstöðvar landsins eru enn uppi í methita fyrir sig - þar á meðal Akureyri (en samt vonlítið um nýtt októbermet þegar upp verður staðið) - og enn er töluleg von um hæsta meðalhita á veðurstöð í október - fer eftir því hvernig suðvestansvalinn fer með Norðaustur- og Austurland? Seyðisfjörður er nú á toppnum með 9,8 stig - og vegagerðarstöðin við Herkonugil á Siglufjarðarvegi reyndar í 10,1 stigi - en rétt er að líta betur á feril þeirrar stöðvar áður en við stimplum tölurnar.
Líkar þettaSýna fleiri viðbrögð
Skrifa ummæli

Engin ummæli:

Skrifa ummæli