þriðjudagur, 1. nóvember 2016

Nú eru aðeins tveir dagar eftir af þessum merkilega október - það má telja ljóst að bæði hita- og úrkomumet verða slegin. Úrkoman er þegar komin upp fyrir hæstu eldri heildartölur mánaðarins í Reykjavík og líklega verða met slegin á fáeinum öðrum stöðvum.
Meðalhitamet októbermánaðar í Reykjavík er 7,9 stig - frá 1915, næsthæsta talan er 7,7 stig (1959 og 1946). Október nú endar einhvers staðar á þessu róli - væntanlega ekki met - því talan nú er 7,94 og varla að hún haldist til loka - eitthvert fimm efstu sætanna virðist tryggt.
Í Stykkishólmi er keppt við 1946 og 7.8 stig - meðalhiti nú er 8.07 og enn möguleiki á meti. Á Akureyri erum við nú í 7,64 stigum - þar stefnir í 2. sætið - 1946 er á toppnum - en nokkuð langt niður í 1915.
Mælt hefur verið í Grímsey frá 1874. Þar stendur meðalhitinn nú í 7.71 stigi, langt ofan við það hæsta hingað til, 7,0 (1946).
Á Egilsstöðum er talan nú 8,51 - svo langt ofan við næsthæstu tölu að ótrúlegt er (6,4 stig, 1959) - en ekki var mælt á Egilsstöðum 1946, 1915 og 1908.
Á Teigarhorni hefur verið mælt frá 1873, hitinn þar er nú í 7,96 stigum - töluvert ofan við eldri topp, 7,4 stig frá 1908 og 1915.
Stórhöfði er í svipaðri stöðu og Reykjavík, meðaltal mánaðarins til þessa, 7,75 stig er nánast jafnhátt og hæstu tvö eldri gildi, 7,7 stig (1946 og 1915).
Miðað við síðstu tíu ár er hitavikið víðast hvar meira en +3 stig. Að tilölu er hlýjast (stærst jákvætt vik) hefur verið á Þeistareykjum (+5,1 stig) og á Nautabúi í Skagafirði (+4,9), en minnst á Steinum undir Eyjafjöllum (+1,9 stig).
Mánaðarmeðalhitinn er enn við 9,0 stig á Seyðisfirði og 9,2 stig við Herkonugili á Siglufjarðarvegi - en sú tala þarf nánari athugunar við.
Sólskinsstundir eru með allra fæsta móti í Reykjavík - þó ekki alveg á botninum. Loftþrýstingur nokkuð hár - en að tiltölu mun hærri austanlands en vestan - líklega einn af mestu sunnanáttaroktóbermánuðum allra tíma - en ritstjórinn gerir það ekki upp fyrr en síðar.
Líkar þettaSýna fleiri viðbrögð
Skrifa ummæli
Ummæli
Sigurður Þór Guðjónsson Eina viðunandi sætið í Reykjavíkurkjördæmi er efsta sætið!
Trausti Jónsson Ef svo fer að mánuðurinn endar í 2. sæti gætum við haldið því fram (með fýlusvip) að talan frá 1915 sé vafasöm - en ef hann lendir neðar mætti nota frasa sem eru vinsælir þessa dagana: „Varnarsigur“ - eða „besti árangur síðan ...“, „betri árangur en ritstjóri hungurdiska spáði - og því í raun stórsigur“ ...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli