Frostlausir októbermánuðir eru ekki algengir hér á landi - óþekktir reyndar á flestum veðurstöðvum. Enginn október hefur verið frostlaus á öllum veðurstöðvum í byggð. Líkur á slíku eru reyndar minni á síðari árum heldur en áður var vegna fjölgunar veðurstöðva.
Þegar þetta er skrifað (18. október) er talið ólíklegt að núverandi októbermánuður nái að bætast í hóp þeirra frostlausu á mörgum stöðvum - þrátt fyrir mjög góðan gang fram að þessu og áfram næstu daga. - En hlýindin eru sæmilegt tilefni til að rifja upp frostleysur.
Í viðhenginu (sjá blogg hungurdiska) er listi sem sýnir á hvaða stöðvum og í hvaða októbermánuðum hefur verið frostlaust. Þar má sjá að október í fyrra (2015) var frostlaus á 10 stöðvum. Einnig var víða frostlaust í október 2010. Október 1975 og 1976 voru einnig óvenjulegir hvað þetta varðar.
Síðast var frostlaust allan október í Reykjavík 1939, en október 1915 var frostlaus á Vífilsstöðum (þar var lágmarkshiti mældur) og líkur eru á að einnig hafi verið frostlaust niðri í bænum (þar mældist aldrei frost í mánuðinum). Lágmarksmælingar voru einnig gerðar á 9. áratug 19. aldar og þá var október 1882 frostlaus í Reykjavík (þá voru hins vegar tvær frostnætur í september).
Á hinum endanum - þess má geta að árið 1981 voru frostmætur í Reykjavík í október 25 - og 26 voru þær í október 1835.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli